Fjórum leikjum er lokið í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Í öllum leikjunum unnu úrvalsdeildarlið sigur á neðrideildarliðum.
Í riðli 1 vann HK góðan 2:0 sigur gegn Grindavík í Kórnum í Kópavogi. Bæði mörk liðsins komu í síðari hálfleik, Bjarni Gunnarsson og Birnir Snær Ingason skoruðu.
Í riðli 2 vann FH nauman 2:1 sigur á Kórdrengjum í Skessunni í Hafnarfirði.
Í riðli 3 vann Stjarnan einnig nauman 3:2 sigur á Vestra á Samsung-vellinum í Garðabæ. Staðan var 1:1 í hálfleik eftir að Stjörnumenn höfðu komist yfir. Garðbæingar komust svo í 3:1 áður en Vestramenn minnkuðu muninn seint í leiknum.
Í riðli 3 vann ÍA svo 3:1 sigur gegn Selfossi í Akraneshöllinni. Hrvoje Tokic kom Selfyssingum yfir strax á fimmtu mínútu en Skagamenn sneru blaðinu við á aðeins tveggja mínútna kafla í fyrri hálfleiknum. Fyrst jafnaði Brynjar Snær Pálsson metin á 25. mínútu og Sigurður Hrannar Þorsteinsson kom Skagamönnum yfir á 27. mínútu. Gísli Laxdal Unnarsson rak svo smiðshöggið með þriðja marki heimamanna á lokamínútu venjulegs leiktíma.