Tveir leikir fóru fram í A-deild Lengjubikars kvenna í dag. Þróttur og Þór/KA unnu þar bæði góða sigra.
Í riðli 1 var Þróttur í heimsókn á gervigrasvelli KR. Þróttur tók forystuna um miðjan fyrri hálfleikinn þegar Álfhildur Rósa Kjartansdóttir skoraði.
Staðan var 1:0 í hálfleik og strax á 49. mínútu tvöfaldaði Þróttur forystu sína þegar Ásdís Atladóttir skoraði.
Eftir rúmlega klukkutíma leik minnkaði Tinna María Tryggvadóttir muninn fyrir KR. Á lokamínútu venjulegs leiktíma skoraði Ásdís Atladóttir annað mark sitt í leiknum og þriðja mark Þróttar og tryggði liðinu þar með góðan 3:1 sigur.
Í riðli 2 vann Þór/KA öruggan sigur á Tindastóli í miklum markaleik í Boganum á Akureyri.
Akureyrarstúlkur settu svo sannarlega tóninn strax í byrjun því staðan var orðin 2:0 eftir aðeins tvær mínútur. Fyrst skoraði Hulda Ósk Jónsdóttir á fyrstu mínútu og Karen María Sigurgeirsdóttir bætti við á annarri mínútu.
Þór/KA slakaði ekkert á og bætti við marki á 20. mínútu þegar 0 María Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði. Murielle Tiernan minnkaði muninn fyrir Tindastól á 29. mínútu og var staðan því 3:1 í hálfleik.
Þór/KA skoraði fjórða markið á 75. mínútu þegar Stólarnir urðu fyrir því óláni að gera sjálfsmark. Átta mínútum síðar kom Margrét Árnadóttir liðinu í 5:1 áður en Jacqueline Altschuld lagaði aðeins stöðuna fyrir Tindastól á lokamínútunni.
Lokatölur því 5:2 fyrir Þór/KA.
Úrslit og markaskorarar úr leik KR og Þróttar eru fengnir af Úrslit.net. Úrslit og markaskorarar úr leik Þór/KA og Tindastóls eru fengnir af Fótbolta.net.