Engin breyting verður á stjórn Knattspyrnusambands Íslands á ársþingi sambandsins sem haldið verður 27. febrúar.
Tveggja ára kjörtímabil formannsins og fjögurra stjórnarmanna lýkur á þinginu en öll gefa þau kost á sér til áframhaldandi setu og enginn hefur tilkynnt um mótframboð. Guðni Bergsson formaður gefur kost á sér til áframhaldandi formennsku og þá hafa þau Ásgeir Ásgeirsson, Borghildur Sigurðardóttir, Magnús Gylfason og Þorsteinn Gunnarsson öll gefið kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Það eru einu framboðin sem bárust og því ljóst að stjórn sambandsins verður óbreytt en þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu sambandsins. Þá lýkur eins árs kjörtímabili varamanna í stjórn og gefa þar einnig allir kost á sér aftur. Það eru Þóroddur Hjaltalín, Guðjón Bjarni Hálfdánarson og Jóhann K. Torfason.