Reynslumikill markvörður í Laugardalinn

Íris Dögg Gunnarsdóttir leikur með Þrótturum á komandi keppnistímabili.
Íris Dögg Gunnarsdóttir leikur með Þrótturum á komandi keppnistímabili. Ljósmynd/Þróttur Reykjavík

Íris Dögg Gunnarsdóttir er gengin til liðs við Þrótt í Reykjavík og mun hún leika með liðinu í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á komandi keppnistímabili.

Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Íris Dögg skrifar undir samning sem gildir út tímabilið í Laugardalnum.

Markverðinum er ætlað að fylla skarð Friðriku Arnardóttur sem ákvað að taka sér hlé frá knattspyrnuiðkun eftir að síðasta keppnistímabili lauk.

Íris Dögg, sem er  31 árs gömul, á að baki 86 leiki í efstu deild með Fylki, KR og FH en hún hefur einnig leikið með Breiðabliki, Aftureldingu, Gróttu og Haukum á ferlinum.

Þróttarar, sem voru nýliðar í efstu deild á síðustu leiktíð, höfnuðu í fimmta sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert