Helgi Valur Daníelsson kom við sögu í kvöld þegar Fylkir lék fyrsta leik sinn í Lengjubikarnum í knattspyrnu á tímabilinu.
Helgi Valur kom inn á sem varamaður á 74. mínútu þegar Fylkir vann ÍBV 3:2 á Würth-vellinum í Árbæ. Arnór Borg Guðjohnsen, Orri Sveinn Stefánsson og Óskar Borgþórsson skoruðu fyrir Fylki en þeir Eyþór Orri Ómarsson og Eyþór Daði Kjartansson fyrir ÍBV.
Varnarmaðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson er orðinn fyrirliði ÍBV en hann gekk aftur í raðir uppeldisfélagsins í vetur frá Val.
Helgi Valur fjórbrotnaði í leik með Fylki í lok júní en tók þá ákvörðun að láta ekki staðar numið heldur reyna að leika með Fylki á Íslandsmótinu í sumar. Helgi verður fertugur í sumar og einhverjir hefðu líklega gefist upp við mótlæti sem þetta.