Andrea Mist til Svíþjóðar

Andrea Mist Pálsdóttir í leik með FH síðasta sumar.
Andrea Mist Pálsdóttir í leik með FH síðasta sumar. Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Andrea Mist Pálsdóttir er búin að skrifa undir tveggja ára samning við sænska úrvalsdeildarliðið Växjö. Andrea Mist kemur frá FH.

Frá þessu er greint á Akureyri.net. Á dögunum var tilkynnt um að hin 22 ára gamla Andrea Mist hafi gengið til liðs við Breiðablik að láni frá FH en nú hefur hún verið keypt til Svíþjóðar

„Ég sagði í viðtali fyrir þremur vikum að mig hafi dreymt um að spila í efstu deild í Svíþjóð frá því ég var lítil, saklaus fótboltastelpa og svo nokkrum dögum seinna kemur þetta tilboð! Ég bjóst ekki við þessu núna, en er að sjálfsögðu himinlifandi,“ sagði Andrea í samtali við Akureyri.net.

Växjö endaði í sjötta sæti af 12 liðum í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili.

„Um leið og tilboðið kom vissi ég hver ákvörðunin yrði. Ég er ótrúlega spennt og get ekki beðið eftir því að sýna mig og sanna í Svíþjóð. Þetta er heldur betur skref fram á við á ferlinum,“ bætti hún við í samtali sínu við Akureyri.net.

Andrea Mist er uppalin hjá Þór/KA og hefur tvisvar áður reynt fyrir sér í atvinnumennsku. Hún gekk til liðs við austurríska úrvalsdeildarfélagið Vorderland á láni frá Þór/KA í byrjun árs 2019 og samdi svo við ítalska A-deildarliðið Orobica í upphafi síðasta árs. Hún samdi svo við FH nokkrum mánuðum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert