Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur gengið frá samningi við hinn 21 árs gamla Marley Blair. Blair, sem er enskur, getur spilað flestar stöður framarlega á vellinum.
Blair lék með unglingaliðum Liverpool og Burnley á sínum tíma, en lék ekki með aðalliðum félaganna. Hann hefur verið án félags síðan samningur hans við Burnley rann út í júlí á síðasta ári.
„Við fögnum komu Marley og hlökkum mikið til að sjá hann spreyta sig í Pepsi MAX-deildinni í sumar. Keflavík bindur miklar vonir við Marley og óskar honum alls hins besta!“ segir í yfirlýsingu frá Keflavík.
Keflavík leikur í efstu deild á komandi tímabili en liðið var í efsta sæti 1. deildarinnar þegar síðasta tímabil var blásið af.