Íslandsmeistarar Vals voru í miklu stuði er liðið mætti Grindavík á Origo-vellinum á Hlíðarenda í Lengjubikar karla í fótbolta í kvöld. Lokatölur urðu 8:1, Val í vil.
Tryggvi Hrafn Haraldsson kom Val yfir á 6. mínútu en Sigurður Bjartur Hallsson jafnaði aðeins tveimur mínútum síðar. Tryggvi var hins vegar aftur á ferðinni á 18. mínútu og kom Valsmönnum í 2:1.
Við það opnuðust flóðgáttir hjá Grindvíkingum því Sigurður Egill Lárusson skoraði tvö mörk áður en flautað var til hálfleiks og var staðan í leikhléi 4:1.
Valsmenn héldu áfram að skora í seinni hálfleik og þeir Patrick Pedersen, Kristófer Jónsson, Kristinn Freyr Sigurðsson og Arnór Smárason bættu allir við mörkum áður en flautað var til leiksloka og lokatölur því 8:1.
Valur er með sex stig eftir tvo leiki en Grindavík er án stiga.