Kvennalið Grindavíkur í fótbolta hefur fengið til sín bandarískan markvörð með talsverða reynslu en Kelly Lyn O'Brien hefur samið við Grindvíkinga um að verja mark þeirra á komandi keppnistímabili.
O'Brien er 25 ára gömul og kemur frá albönsku meisturunum Vllaznia þar sem hún lék í undankeppni Meistaradeildarinnar í haust en hún hefur einnig leikið með liðum í Ungverjalandi og Bandaríkjunum. Áður lék hún með háskólaliði Lafayette.
Grindavík vann 2. deildina á síðasta tímabili, eftir að hafa fallið tvö ár í röð. Eyjamaðurinn Jón Ólafur Daníelsson tók við þjálfun liðsins í vetur.