Breiðablik nældi í stig gegn Fylki í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu er liðin mættust í Fífunni í dag. Leiknum lauk 2:2 en gestirnir frá Árbænum virtust eiga sigurinn vísan um rúmum tíu mínútum fyrir leikslok.
Eftir markalausan fyrri hálfleik náði Fylkir forystunni á 76. mínútu er Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði. Hún bætti svo við marki fjórum mínútum síðar, staðan orðin 2:0, tíu mínútum fyrir leikslok. Heimakonur dóu þó ekki ráðalausar. Vigdís Edda Friðriksdóttir minnkaði muninn á 85. mínútu og Karitas Tómasdóttir kreisti fram jöfnunarmark á fjórðu mínútu uppbótartímans, lokatölur 2:2.
Blikar eru á toppi riðils 2 með fjögur stig eftir tvo leiki, fyrir ofan Fylkiskonur á markatölu. Þór/KA hefur þó bara leikið einn leik og getur komist eitt á toppinn, vinni liðið FH síðar í dag.