FH vann sannfærandi 4:0-sigur á Þór í Skessunni í Hafnarfirði í 2. riðli í Lengjubikar karla í fótbolta í dag.
Einar Örn Harðarson og Matthías Vilhjálmsson komu FH í 2:0 í fyrri hálfleik og þeir Þórir Jóhann Helgason og Vuk Oskar Dimitrijevic bættu við mörkum í seinni hálfleiknum.
Í fjórum leikjum er FH með tvo sigra, eitt tap og eitt jafntefli. Þór hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum.
Í 1. riðli mættust Afturelding og KA og vann KA gríðarlega sannfærandi 7:1-sigur. Brynjar Ingi Bjarnason og Daníel Hafsteinsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir KA og þeir Jonathan Hendrickx, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Steinþór Freyr Þorsteinsson komust einnig á blað. Valgeir Árni Svansson skoraði mark Aftureldingar.
KA hefur unnið þrjá leiki og tapað einum á meðan Afturelding hefur unnið einn leik og tapað þremur.