Tveimur leikjum er lokið í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Grindavík og Selfoss unnu þar bæði nauma sigra.
Í riðli 1 bar Grindavík sigurorð af Víkingi Ólafsvík með þremur mörkum gegn tveimur á Domusnova-vellinum í Breiðholti. Undir lok leiksins fóru þrjú rauð spjöld á loft, tvö hjá Grindavík og eitt hjá Víkingi.
Grindavík leiddi 2:0 í hálfleik eftir mörk frá Guðmundi Magnússyni og Viktori Guðbergi Haukssyni en eftir rúmlega klukkutíma leik voru Víkingar búnir að jafna metin í 2:2 með tveimur mörkum frá Bjarti Bjarma Barkarsyni.
Sigurmark Grindvíkinga kom svo á 76. mínútu, en það gerði Nemanja Latinovic. Skömmu síðar fóru rauðu spjöldin þrjú á loft. Á 81. mínútu fengu bæði Guðmundur Magnússon hjá Grindavík og Hlynur Sævar Jónsson hjá Víkingi sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Á 89. mínútu fylgdi Viktor Guðbergi í sömu átt þegar hann fékk sitt annað gula spjald. Grindvíkingar náðu að halda út þrátt fyrir liðsmuninn og unnu að lokum góðan 3:2-sigur.
Grindavík er eftir sigurinn í fjórða sæti riðils 1 og á enn möguleika á að komast áfram í 8-liða úrslitin. Víkingur situr sem fastast á botni riðilsins án stiga.
Eitt mark nóg á Selfossi
Í riðli 3 tók Selfoss á móti Vestra á JÁVERK-vellinum á Selfossi og vann með minnsta mun, 1:0.
Hrvoje Tokic skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 35. mínútu leiksins.
Selfoss og Vestri eru í neðstu sætum riðils 3, Selfoss í fimmta og Vestri í því sjötta, og eiga ekki möguleika á að komast áfram í 8-liða úrslitin.