Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, segir að það hafi verið gríðarleg vonbrigði að engar breytingar skyldu vera samþykktar á úrvalsdeild karla í fótbolta á ársþingi KSÍ í lok febrúar.
Tillaga Fram um fjölgun liða úr tólf í fjórtán var felld og í kjölfarið var tillaga starfshóps KSÍ um að vera áfram með tólf lið en taka upp úrslitaumferð sex efstu liðanna, sem og sex neðstu liðanna, og bæta þannig við fimm leikjum á lið, einnig felld. Báðar tillögur fengu rúmlega 50 prósent atkvæða en þurftu 67 prósent til að verða samþykktar.
Í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun segir Jónas að það sem gerðist á þinginu sé afar athyglisvert.
„Það sem mér þótti athyglisverðast er að þegar tillaga Fram um fjórtán liða deild hafði fengið þessa umræðu og var í raun og veru felld, þá hafi því miður menn, sem vildu fjölga keppnisleikjum, farið í andhverfu sína og kosið gegn hinni tillögunni. Fyrst við fengum ekki þetta í gegn þá samþykkjum við ekki hitt. Bara óbreytt staða og þar með gerist ekkert fyrir fótboltann,“ segir Jónas m.a. í ítarlegu viðtali um stöðuna á íslenskum fótbolta í viðtalinu.