Skagamenn nældu í jafntefli í lokin

Aron Kristófer Lárusson, annar frá vinstri, skoraði fyrra mark Skagamanna …
Aron Kristófer Lárusson, annar frá vinstri, skoraði fyrra mark Skagamanna í kvöld. Ljósmynd/Skagafréttir

Skagamenn kreistu fram 2:2-jafntefli gegn Gróttu er liðin mættust í Lengjubikarnum í knattspyrnu í Akraneshöllinni í kvöld. Gestirnir frá Seltjarnarnesi komust í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik.

Fyrirliðinn Halldór Kristján Baldursson og Gunnar Jónas Hauksson skoruðu fyrir Gróttu á 15. og 25. mínútu leiksins. Aron Kristófer Lárusson minnkaði svo muninn fyrir heimamenn um stundarfjórðung fyrir leikslok áður en Sigurður Hrannar Þorsteinsson skoraði jöfnunarmark í uppbótartíma, lokatölur 2:2.

ÍA er með sjö stig í 3. sæti 3. riðils, rétt eins og Keflavík í öðru sætinu. Stjarnan er efst með 12 stig og eru Garðbæingar nú þegar öruggir um að komast áfram í næstu umferð. Grótta er með 5 stig í fjórða sætinu.

Keflavík mætir ÍA í lokaumferðinni á laugardaginn, sigurliðið fer áfram, en endi leikurinn með jafntefli á Grótta möguleika á að ná öðru sætinu á markatölu. Grótta mætir Vestra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert