Eyjamenn halda sínum besta manni

Gary Martin eftir að hafa skrifað undir samninginn í dag.
Gary Martin eftir að hafa skrifað undir samninginn í dag. Ljósmynd/ÍBV

Enski sóknarmaðurinn Gary Martin hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við ÍBV og verður því hjá félaginu út tímabilið 2023.

Frá þessu er greint á heimasíðu ÍBV. Auk þess að spila með með liðinu mun Martin þjálfa hjá yngri flokkum félagsins og vera með séræfingar.

„Mér hefur alltaf liðið vel í Vestmannaeyjum og mér líkar mjög vel við klúbbinn. Ég kom hingað til að vera þáttur af ákveðnu verkefni og vil leggja mitt af mörkum til að það takist og bæta stuðningsmönnum það sem þeir sáu á síðasta ári. Ég er mjög glaður og lít björtum augum á framtíðina í Vestmannaeyjum,“ sagði hann við heimasíðu ÍBV.

Gary Martin kom fyrst hingað til lands árið 2010 þegar hann gekk til liðs við ÍA. Hann hefur einnig leikið með KR, Víkingi Reykjavík og Val hér á landi.

Samtals hefur hann skorað 87 mörk í 152 deildaleikjum hér á landi, þar af 57 mörk í 108 leikjum í úrvalsdeildinni. Í fyrra skoraði hann 11 mörk í 19 leikjum fyrir ÍBV þegar liðið endaði í 6. sæti Lengjudeildarinnar, og auk þess sjö mörk í bikarkeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert