Frá Hlíðarenda til Svíþjóðar

Diljá Ýr Zomers í leik með Val síðasta sumar.
Diljá Ýr Zomers í leik með Val síðasta sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnukonan Diljá Ýr Zomers mun leika með Häcken í sænsku úrvalsdeildinni á komandi keppnistímabili.

Diljá hefur fengið félagaskipti til Svíþjóðar en hún kemur til sænska félagsins frá Val þar sem hún lék á síðustu leiktíð.

Sóknarkonan, sem er 19 ára gömul, er uppalin hjá FH í Hafnarfirði en lék með Stjörnunni tímabilið 2019.

Hún á að baki 50 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað þrjú mörk og þá á hún að baki fimm landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hún hefur skorað eitt mark.

Samkvæmt heimildum mbl.is eiga Valur og Häcken nú í viðræðum um það hvort sænska félagið kaupi Diljá af Val eða hvort leikmaðurinn muni leika á láni í Svíþjóð. 

Diljá verður fjórði leikmaður Vals sem fer í atvinnumennsku eftir síðasta tímabil og sá þriðji sem fer til Svíþjóðar en Guðný Árnadóttir gekk til liðs við Napoli á Ítalíu, Hlín Eiríksdóttir samdi við Piteå í Svíþjóð og Hallbera Guðný Gísladóttir gekk til liðs við nýliða AIK.

Häcken fékk keppnisleyfi núverandi Svíþjóðarmeistara Kopparbergs/Gautaborgar sem vann sænsku úrvalsdeildina á síðustu leiktíð en liðið var í miklum rekstrarvandræðum eftir síðasta tímabil.

Tímabilið í sænsku úrvalsdeildinni hefst hinn 17. apríl en Häcken hefur titilvörnina á útivelli gegn Hammarby.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert