Hefur rætt við landsliðsþjálfarann

Kári Árnason á að baki 87 A-landsleiki fyrir Ísland.
Kári Árnason á að baki 87 A-landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Kári Árnason hefur rætt við landsliðsþjálfarann Arnar Þór Viðarsson um framtíð sína í íslenska landsliðinu.

Kári, sem er 38 ára gamall, var gestur í hlaðvarpsþættinum Fantasy Gandalf þar sem hann ræddi knattspyrnuferlinn.

Miðvörðurinn öflugi hefur verið algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár en hann leikur með Víkingi í Reykjavík í dag eftir farsælan atvinnumannsferil.

Alls á hann að baki 87 A-landsleiki en hann er sjöundi leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi.

Ísland mætir Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein í fyrstu leikjum sínum í undankeppni HM í lok mars og gæti vel farið svo að Kári verði í hópnum.

„Ef þeir velja mig þá velja þeir mig,“ sagði Kári í Fantasy Gandalf.

„Ég hef rætt við Arnar [Þór Viðarsson] og Eið [Smára Guðjohnsen] og þetta er undir þeim komið.

Ef þeir velja mig ekki þá er það bara þannig og ég verð ekkert bitur yfir þeirri ákvörðun.

Þetta er eitthvað sem þeir verða að ákveða,“ bætti Kári við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert