Agla María Albertsdóttir landsliðskona í knattspyrnu hefur skrifað undir nýjan samning við Íslandsmeistara Breiðabliks til tveggja ára.
Agla María er 21 árs gömul og lék með yngri flokkum Breiðabliks en fór 15 ára í Val og þaðan ári síðar í Stjörnuna. Hún kom síðan á ný í raðir Breiðabliks árið 2018 og hefur verið í lykilhlutverki hjá Kópavogsliðinu frá þeim tíma. Hún hefur orðið tvisvar Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari með liðinu.
Samtals á Agla María að baki 93 úrvalsdeildarleiki og hefur skorað í þeim 44 mörk en með Breiðabliki hefur hún skorað 73 mörk í 92 mótsleikjum.
Á síðasta tímabili átti hún flestar stoðsendingar allra leikmanna í deildinni, 15 talsins, og varð jafnframt markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt samherja sínum Sveindísi Jane Jónsdóttur en þær gerðu 14 mörk hvor í 15 leikjum Íslandsmeistaranna.
Agla María hefur leikið með landsliði Íslands frá árinu 2017 og lék þá 17 ára gömul í lokakeppni EM í Hollandi. Hún á nú 33 landsleiki að baki og spilaði auk þess 27 leiki með yngri landsliðum Íslands.