Fimm Víkingsmörk og sigur í riðlinum

Arnar Gunnlaugsson er kominn með marksækna Víkinga í átta liða …
Arnar Gunnlaugsson er kominn með marksækna Víkinga í átta liða úrslit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingar úr Reykjavík gerðu góða ferð til Akureyrar í kvöld þegar þeir unnu þar stórsigur á Þór í Boganum, 5:0, í lokaumferð riðlakeppni deildabikars karla í knattspyrnu, Lengjubikarsins.

Víkingar voru þegar öruggir um sæti í átta liða úrslitunum en með sigrinum unnu þeir riðil tvö þar sem þeir fengu 13 stig úr fimm leikjum og markatalan var 20:4. KR fer einnig áfram með 11 stig en FH með 8 stig, Fram með 5, Kórdrengir með 4 og Þórsarar án stiga hafa lokið keppni.

Staðan var 0:0 í hálfleik en í seinni hálfleik skoraði Helgi Guðjónsson tvö mörk, Kristall Máni Ingason og Logi Tómasson eitt hvor, auk þess sem aðstoðarþjálfarinn Einar Guðnason kom inn á undir lokin og skoraði fimmta markið.

Víkingar mæta liðinu sem endar í öðru sæti þriðja riðils en um það berjast Keflavík, ÍA og Grótta. Keflavík og ÍA mætast á morgun og sigurliðið fer áfram. Keflavík nægir jafntefli til að vera fyrir ofan ÍA en þá ætti Grótta möguleika á að ná öðru sætinu með því að sigra Vestra með fjögurra marka mun á sunnudaginn.

Átta liða úrslitin verða leikin um næstu helgi en riðlakeppninni lýkur um helgina. Þá skýrist hvaða fjögur lið fylgja Víkingi, KR, Breiðabliki og Stjörnunni.

KR er komið áfram og mætir Val eða KA.

Breiðablik er komið áfram og mætir KA, Val eða HK.

Stjarnan er komin áfram og mætir Fylki eða Leikni R.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert