Leiknismenn eygja möguleika

Sævar Atli Magnússon, fyrir miðju, skoraði tvö fyrir Leiknismenn í …
Sævar Atli Magnússon, fyrir miðju, skoraði tvö fyrir Leiknismenn í kvöld. mbl.is/Íris

Leiknir getur enn komist áfram í fjórðungsúrslit Lengjubikars karla í knattspyrnu eftir 5:2-sigur á Þrótti er Reykjavíkurliðin mættust í Breiðholtinu í kvöld.

Sævar Atli Magnússon og Ágúst Leó Björnsson komu Leiknismönnum í tveggja marka forystu áður en gestirnir minnkuðu muninn úr vítaspyrnu. Emil Berger endurheimti tveggja marka forystu Leiknis áður en Daði Bergsson minnkaði aftur muninn fyrir Fylki skömmu fyrir hálfleik. Sævar Atli bætti svo við öðru marki sínu og Daníel Matthíasson skoraði einnig fyrir Leiknismenn í síðari hálfleik.

Leiknir er nú með níu stig í þriðja sæti riðilsins, eins og Fylkir. Breiðholtsliðið þarf nú að treysta á að Fylkir tapi með tveimur eða fleiri mörkum gegn Breiðabliki í lokaleik liðanna. Þróttarar eru næstneðstir í 4. riðli með þrjú stig.

Þá gerðu Fram og Kórdrengir 1:1-jafntefli í Safamýrinni í fyrstu viðureign liðanna frá upphafi. Albert Brynjar Ingason kom Kórdrengjum í forystu snemma í síðari hálfleik en Aron Snær Ingason nældi í stig fyrir Framara með marki sínu skömmu fyrir leikslok. Fram er í 4. sæti 2. riðils með fimm stig og Kórdrengir sæti neðar með fjögur. KR og Víkingur úr Reykjavík hafa þegar tryggt sér efstu tvö sæti riðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert