Þróttur úr Reykjavík og ÍBV skildu jöfn á Eimskipsvellinum í Lengjubikar kvenna í knattspyrnu í dag, 2:2.
Shaelan Murison, sem er nýgengin til liðs við Þróttara, kom heimakonum í forystu á 13. mínútu en Olga Sevcova jafnaði metin fyrir gestina um tíu mínútum síðar. Viktorija Zaicikova kom svo Eyjakonum í forystu á 56. mínútu en Álfhildur Rósa Kjartansdóttir jafnaði fyrir Þróttara um hæl eða tveimur mínútum síðar.
Þróttur er í öðru sæti fyrsta riðils með sjö stig, tveimur á eftir Völsurum sem eru með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir. ÍBV er í 5. og næstneðsta sæti með eitt stig.