ÍBV vann sinn fyrsta leik í Lengjubikarnum í ár er Eyjamenn heimsóttu Fjölni í Egilshöllina í 4. riðlinum í dag.
Eyjamenn voru fyrir leik dagsins búnir að tapa fyrstu þremur leikjum sínum en náðu með sigrinum að fara upp fyrir Fjölni í 5. sætið. Sindri Scheving varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og jafnframt koma gestunum í forystu á 16. mínútu og framherjinn Gary Martin skoraði svo tvö mörk fyrir leikhlé.
Andri Freyr Jónasson minnkaði muninn fyrir Fjölni snemma í síðari hálfleik en nær komst liðið ekki og lokatölur 3:1. Fjölnir er með þrjú stig eftir alla sína fimm leiki en aðeins er eftir að spila einn leik í riðlinum, viðureign Þróttar úr Reykjavík gegn ÍBV, en leikurinn fer fram næsta föstudag. Breiðablik og Fylkir enduðu í efstu tveimur sætum riðilsins og fara í átta liða úrslitin.