Gamla ljósmyndin: Sá yngsti í 31 ár

Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Skagamaðurinn Sigurður Jónsson varð yngstur allra til að spila Evrópuleik með A-landsliði í knattspyrnu hinn 5. júní árið 1983. Var Sigurður þá 16 ára og 251 dags gamall. 

Sigurði var þá skipt inn á sem varamanni af Jóhannesi Atlasyni landsliðsþjálfara í leik í undankeppni EM 1984 gegn Möltu á Laugardalsvellinum fyrir annan Skagamann, Pétur Pétursson. Á meðfylgjandi mynd má sjá Sigurð einbeittan í þann mund að fara inn á eftir að hafa tekið í hönd Péturs. 

Myndina tók Skapti Hallgrímsson sem myndaði og skrifaði fyrir Morgunblaðið í áratugi. Skapti rifjaði upp atvikið í Morgunblaðinu hinn 14. nóvember árið 2014. Skapta þótti myndin ekki neitt meistaraverk en var ánægður með að hafa náð að fanga augnablikið en talsvert var fyrir því haft því Skapti sat í blaðamannastúkunni og fylgdist með leiknum. 

„Höfundur þessa pistils, þá nýorðinn 21 árs, sat spenntur í blaðamannastúkunni og beið þess að ljósmyndarar fyrir aftan mark Maltverja áttuðu sig. Langt var þar til hugmynd að farsíma kviknaði og engin bréfdúfa á staðnum svo nú voru góð ráð dýr. Moggamaðurinn ungi var með myndavél sína í tösku og þegar Pétur Pétursson fór að haltra og greinilega stutt í skiptingu stökk maðurinn með töskuna af stað: aftur úr stúkunni, inn um dyr á suðausturenda hennar og niður tröppur, inn langan gang og tók snögga hægri beygju um hann miðjan. Var kominn út að hliðarlínu, í þann mund er Pétur gekk af velli. Myndavélin var sennilega eins vitlaust stillt og mögulegt var en spretturinn borgaði sig samt: Þegar Skagamennirnir tókust í hendur og Siggi skokkaði inn á völlinn var engin önnur myndavél nálæg,“ skrifaði Skapti í upprifjun sinni árið 2014. 

Ísland vann Möltu 1:0 og skoraði Atli Eðvaldsson eina markið. Skoraði hann sex mörk sömu helgina en daginn áður skoraði hann fimm sinnum fyrir Fortuna Düsseldorf í lokaumferð efstu deildar eins og frægt varð í Þýskalandi. 

Met Sigurðar stóð fram til ársins 2014 þegar Norðmaðurinn Martin Ødegaard sló það. Lék hann þá sinn fyrsta A-landsleik fyrir Noreg aðeins 15 ára og 300 daga gamall. 

Sigurður varð auk þess yngstur til að spila fyrir íslenska karlalandsliðið og bætti þá ellefu ára gamalt met Ásgeirs Sigurvinssonar. Met Sigurðar stendur enn eftir tæp 38 ár. 

Sigurður lék alls 65 A-landsleiki og skoraði 3 mörk. Landsliðsferlinum lauk hann árið 1999 sem lykilmaður í liði Íslands sem barðist við Frakkland og Úkraínu um að komast í lokakeppni EM 2000. 

Árið 1983 var Sigurður í liði ÍA sem varð tvöfaldur meistari og sama var uppi á teningnum árið eftir. Þá hélt hann utan og lék sem atvinnumaður með Sheffield Wednesday, Arsenal, Barnsley, Örebro og Dundee United. Arsenal var Englandsmeistari þegar félagið hafði töluvert fyrir því að fá Sigurð til sín frá Sheffield sumarið 1989. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka