Valur leikur til fjórðungsúrslita í Lengjubikar karla í knattspyrnu eftir að liðið vann 3:0-sigur á fyrstudeildarliði Aftureldingar á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag.
Valsmenn mæta þar með KR í átta liða úrslitum keppninnar um næstu helgi.
Kristinn Freyr Sigurðsson kom Völsurum yfir eftir stundarfjórðung áður en Sigurður Egill Lárusson bætti við forystu heimamanna eftir klukkutímaleik. Patrick Pedersen rak svo smiðshöggið á sigurinn á 87. mínútu með þriðja marki Valsara.
Valur er því öruggt með efsta sæti riðilsins, lýkur keppni með 13 stig eftir fimm leiki. HK er sem stendur í öðru sætinu eftir sigurinn gegn Ólafsvíkingum fyrr í dag en í kvöld tekur KA á móti Grindavík. HK er með 10 stig í öðru sæti og KA með níu stig og geta norðanmenn því skotið sér áfram í næstu umferð með jafntefli eða sigri, enda með betri markatölu en HK.