Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í fótbolta, verður ekki með íslenska landsliðinu er það mætir Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM síðar í mánuðinum vegna kálfameiðsla sem hann hefur glímt við undanfarið.
Alfreð staðfesti tíðindin í samtali við blaðamann á heimasíðu þýska knattspyrnusambandsins. „Ég talaði við landsliðsþjálfarann í síðustu viku og ég verð væntanlega ekki í hópnum þar sem ég er enn meiddur á kálfa,“ sagði Alfreð.
Í viðtalinu er markalausa jafntefli Íslands og Þýskalands á Laugardalsvelli rifjað upp en þá var Alfreð fjórtán ára gamall stuðningsmaður Íslands í stúkunni. „Það var sterkt fyrir Þýskaland að ná 0:0 úr þeim leik,“ sagði Alfreð glettinn.