Gæti snúið aftur í sumar eftir barnsburð

Fanndís Friðriksdóttir lék fjóra leiki með Val í úrvalsdeildinni síðasta …
Fanndís Friðriksdóttir lék fjóra leiki með Val í úrvalsdeildinni síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Fanndís Friðriksdóttir gæti snúið aftur á knattspyrnuvöllinn í sumar eftir tæplega árs fjarveru.

Fanndís eignaðist sitt fyrsta barn í byrjun febrúarmánaðar en hún snéri aftur til æfinga hjá félagsliði sínu Val á dögunum.

Sóknarkonan, sem er þrítug, á að baki 204 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 107 mörk.

Hún hefur leikið með Breiðabliki og Val á ferlinum en hún hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari og tvívegis bikarmeistari.

Þá hefur hún leikið sem atvinnukona með Kolbotn og Arnar-Björnar í Noregi, Marseille í Frakklandi og Adelaide United í Ástralíu.

Þá á hún að baki 109 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað 19 mörk. 

„Ég stefni á að spila í sumar,“ sagði Fanndís í samtali við Instagram-síðu Heimavallarins.

„Vonandi heldur áfram að ganga vel að æfa,“ bætti Fanndís við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert