Knattspyrnudeild ÍBV hefur samið við bandaríkjakonuna Delaney Baie Pridham. Pridham, sem er 23 ára gömul, er sóknarmaður sem getur einnig spilað á miðjunni.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á heimasíðu ÍBV.
Þar er greint frá því að Pridham, sem er venjulega kölluð DB, sé búin að æfa með liðinu undanfarnar vikur og spilaði æfingaleik gegn Gróttu þar sem hún lagði upp mark.
Hún gengur til liðs við Eyjakonur frá háskólaliði Santa Clara, sem leikur í efstu deild NCAA háskóladeildarinnar í Bandaríkjunum.
Í tilkynningu ÍBV segir ennfremur:
„Delaney kemur til með að styrkja lið ÍBV fyrir baráttuna sem framundan er í Pepsi Max-deildinni.
Hún spilaði fyrir DeAnza Force Youth liðið í ECNL deild Bandaríkjanna sem er sú sterkasta í yngri flokkum þar í landi. Hún spilaði seinna með háskólaliði Santa Clara, liðinu gekk ágætlega og gerði vel í NCAA deildinni.
Hún kemur beint til ÍBV frá Santa Clara háskólanum, sem er mjög sterkur fótboltaskóli.“