Danski miðvörðurinn Rasmus Christiansen hefur framlengt samning sinn við Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu.
Í tilkynningu frá knattspyrnudeild Vals kemur ekki fram til hversu margra ára Christiansen framlengir en þó er ljóst að hann semur að minnsta kosti út tímabilið 2022 þar sem fyrri samningur hans átti að renna út að loknu tímabilinu 2021.
Christiansen varð Íslandsmeistari með Val árin 2018 og 2020. Var hann lykilmaður árið 2020 og lék alla 18 leiki liðsins í Pepsi Max-deildinni.
Hann lék sem lánsmaður með Fjölni í næstefstu deild, sem þá hét Inkasso-deildin, árið 2019 þegar hann var að jafna sig á erfiðum meiðslum og hjálpaði liðinu að komast upp í Pepsi Max-deildina.
„Það er fagnaðarefni að þessi mikli leiðtogi innan sem utan vallar hafi framlengt samning sinn við félagið sem hann gekk til liðs við fyrir tímabilið 2016," segir í tilkynningu frá Val.
Christiansen kom fyrst hingað til lands árið 2010, þegar hann samdi við ÍBV. Hann lék með liðinu út tímabilið 2012 og gekk svo til liðs við Ull/Kisa í norsku B-deildinni árið 2013, þar sem hann lék tvö tímabil. Árið 2015 samdi hann svo við KR áður en gekk til liðs við Val árið eftir.