Natasha Anasi skoraði þrennu fyrir Keflavík þegar liðið tók á móti KR í deildabikar kvenna í knattspyrnu, Lengjubikarnum, í Reykjaneshöllinni í Keflavík í kvöld.
Leiknum lauk með 6:0-sigri Keflavíkur en KR-ingar voru án sinna reynslumestu leikmanna í leiknum.
María Rún Guðmundsdóttir kom Keflavík yfir á 28. mínútu og Ísabel Jasmín Almarsdóttir bætti við tveimur mörkum til viðbótar og staðan því 3:0 í hálfleik.
Natasha skoraði svo þrjú mörk á átta mínútna kafla í síðari hálfleik og þar við sat.
Keflavík fer með sigrinum upp í annað sæti 1. riðils og er með 9 stig eftir fjóra leiki en Valskonur eru í efsta sæti riðilsins með 9 stig og eiga leik til góða á Keflavík.
Þróttur úr Reykjavík er í þriðja sætinu með 7 stig og á leik til góða á Keflavík en liðin mætast í hreinum úrslitaleik um sæti í undanúrslitum deildabikarsins hinn 27. mars í Laugardalnum.