Akureyringar semja við þrjá erlenda leikmenn

Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA.
Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þrír erlendir leikmenn munu á næstu dögum ganga til liðs við Þór/KA og leika með liðinu í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í sumar.

Leikmennirnir sem um ræðir eru þær Sandra Nabweteme frá Úganda, Miranda Smith frá Kanada og Colleen Kennedy frá Bandaríkjunum.

Nabweteme er framherji sem hefur raðað inn mörkunum í bandaríska háskólaboltanum með Southwestern Oklahoma-háskólanum.

Smith, sem er miðjukona, lék síðast í efstu deild Finnlands með TPS og Kennedy, sem er sóknarkona, lék síðast með Sandviken í Svíþjóð.

 „Með tilkomu þessara þriggja erlendu leikmanna fáum við reynslu inn í hinn unga leikmannahóp okkar og styrkjum ákveðnar stöður á vellinum,“ sagði Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari liðsins.

„Leikmannahópurinn hefur tekið miklum breytingum eftir undanfarin þrjú tímabil, bæði með brotthvarfi erlendra leikmanna og innlendra sem ýmist hafa haldið utan í atvinnumennsku eða til félaga á suðvesturhorninu.

Við horfum bjartsýn fram á komandi tímabil og hlökkum til að takast á við þær áskoranir sem bíða okkar. Við bindum miklar vonir við þessa þrjá erlendu leikmenn og vonumst til að þær geri okkar öflugu heimastelpur í Þór/KA enn öflugri,“ bætti Andri Hjörvar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert