Knattspyrnumaðurinn Ísak Óli Ólafsson gæti snúið aftur til Keflavíkur í sumar en hann er samningsbundinn SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni.
Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag en Ísak mun þá ganga til liðs við uppeldisfélag sitt sem lánsmaður frá SönderjyskE.
Miðvörðurinn gekk til liðs við danska félagið í ágúst 2019 en honum hefur ekki tekist að vinna sér inn fast sæti í liði SönderjyskE frá því hann kom.
Hann hefur einungis komið við sögu í tveimur leikjum með SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu og í báðum leikjum hefur hann komið inn á sem varamaður.
Þá hafa lið í Noregi, Svíþjóð og Bandaríkjunum einnig sýnt því áhuga að fá íslenska varnarmanninn að láni.
Ísak á að baki 22 leiki í efstu deild hér á landi þar sem hann hefur skorað eitt mark en hann er í íslenska landsliðshópnum sem er á leið í lokakeppni EM 2021 í Ungverjalandi og Slóveníu.