Knattspyrnumenn sem leika í ensku úrvalsdeildinni mega ferðast til Þýskalands til að taka þátt í landsliðsverkefnum og því ljóst að alla vega þrír leikmenn íslenska landsliðsins geta tekið þátt í leik Íslands og Þýskalands í næstu viku.
Fyrr í dag sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, að óvíst væri hvort þeir fjórir leikmenn landsliðsins sem spila á Bretlandseyjum myndu fá inngöngu í Þýskaland vegna þeirra ströngu sóttvarnareglna sem eru við lýði þar í landi.
Nú hefur þýska knattspyrnusambandið hins vegar sent frá sér tilkynningu og staðfest að leikmenn Þýskalands og Íslands sem spila í ensku úrvalsdeildinni mega ferðast til landsins og til borgarinnar Duisburg, þar sem leikurinn fer fram, án þess að fara í tíu daga sóttkví. Undanþágan snýr að því að leikmennirnir gangast undir vinnusóttkví og verða að skila neikvæðu kórónuveiruprófi sem má ekki vera eldra en 24 tíma gamalt.
Orðalagið í tilkynningunni er þó á þann hátt að undanþágan eigi aðeins við um leikmenn í úrvalsdeildinni. Þetta þýðir að þeir Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Rúnar Alex Rúnarsson geta allir tekið þátt í leiknum. Jón Daði Böðvarsson spilar með enska liðinu Millwall í B-deildinni og því ekki alveg skýrt hvort undanþágan nær til hans einnig.
Sömuleiðis geta fjölmargir þýskir landsliðsmenn tekið þátt: Ilkay Gündogan hjá Manchester City, auk þeirra Timo Werner, Antonio Rüdiger og Kai Havertz hjá Chelsea, Bernd Leno hjá Arsenal og Robin Koch hjá Leeds United.