„Loksins er allt klárt og hópurinn staðfestur ef svo má segja,“ sagði Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðs karla í knattspyrnu í samtali við mbl.is á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í dag.
Á fundinum tilkynnti Davíð Snorri hvaða 23 leikmenn verða í hópnum sem tekur þátt í lokakeppni EM 2021 sem fram fer í Ungverjalandi og Slóveníu.
Ísland leikur í C-riðli undankeppninnar en allir leikir íslenska liðsins fara fram í Györ í Ungverjalandi.
Fyrsti leikur Íslands er gegn Rússum 25. mars, svo Dönum 28. mars og loks Frökkum 31. mars.
„Þetta hefur verið strembinn undirbúningur en jafnframt skemmtilegur líka og þetta verkefni leggst virkilega vel í mig. Ég hlakka til að komast út til Ungverjalands og hefja undirbúninginn af fullum krafti,“ bætti Davíð Snorri við.
A-landslið Íslands hefur leik í undankeppni HM 25. mars gegn Þýskalandi í Duisburg en óvíst er hvort að leikmenn A-landsliðsins, sem leika á Englandi, fá leyfi til þess að ferðast til Þýskalands.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðsins, getur því kallað á leikmenn úr U21-árs landsliðinu ef svo ber undir.
„Ef leikmaðyr er skráður í hópinn hjá okkur þá má hann koma til baka, fari svo að þeir verði kallaðir upp í A-landsliðið fyrir leikinn gegn Þýskalandi. Þetta er þriggja leikja landsleikjagluggi og hver leikmaður má spila þrjá leiki í glugganum.
Varðandi sóttkví og annað tengt þessu þá ríkir hálfgerð óvissa um það og hvernig því yrði háttað. Staðan í heiminum í dag er bara þannig að það er óvissa í kringum allt sem tengist ferðalagi á milli landa en við munum að sjálfsögðu fylgja öllum sóttvarnareglum og reglum sem okkur verða settar.“
Danir eru í sjötta sæti á styrleikalista UEFA og Frakkar í þriðja sætinu. Það er því ljóst að róðurinn verður þungur fyrir íslenska liðið í lokakeppninni.
„Ég hef fyrst og fremst einbeitt mér að mínu liði í mínum undirbúningi fyrir þetta mót. Við erum komnir á lokamótið því við stóðum okkur vel í undankeppninni og við eigum að vera stoltir af því sem við höfum afrekað hingað til.
Við erum að fara mæta mjög sterkum mótherjum og við þurfum að reyna finna leiðir til þess að særa þá. Við höfum trú á því leikskipulagi sem við munum leggja upp með og svo þarf bara að koma í ljós hvernig það skilar sér inn í leikina.
Sviðið er strákanna og núna er það okkar að sýna okkar bestu hliðar,“ sagði Davíð Snorri í samtali við mbl.is.