Markvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir er gengin til liðs við Örebro, sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hún kemur á frjálsri sölu frá Fylki og gerir eins árs samning.
Útlit var fyrir að Cecilía myndi ganga til liðs við Everton og vera svo lánuð beint til Örebro en svo er ekki og hefur hún nú samið við Örebro. Hún hittir þar fyrir Berglindi Rós Ágústsdóttur, sem var fyrirliði Fylkis undanfarin ár og gekk til liðs við Örebro í upphafi þessa árs.
Cecilía, sem er aðeins 17 ára gömul, hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað alls 55 leiki í deild í meistaraflokki, þar af 30 leiki í Pepsi Max-deildinni undanfarin tvö tímabil. Þá hefur hún spilað einn A-landsleik og 24 landsleiki fyrir yngri landsliðin.
Hún var aðeins 13 ára þegar hún spilaði sinn fyrsta leik í meistaraflokki fyrir Aftureldingu/Fram í C-deildinni árið 2017. Spilaði hún alls fimm leiki það sumar og svo 13 leiki ári seinna í B-deildinni, Inkasso-deildinni.