Ein sú efnilegasta í Evrópu

Cecilía Rán Rúnarsdóttir í leik með Fylki síðastliðið sumar.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir í leik með Fylki síðastliðið sumar. mbl.is/Íris

Í dag voru félagaskipti landsliðsmarkvarðarins Cecilíu Ránar Rúnarsdóttir til sænska knattspyrnuliðsins Örebro staðfest. Yfirmaður íþróttamála hjá félaginu segir Cecilíu Rán vera einn allra efnilegasta markvörð Evrópu.

„Cecilía er mjög efnilegur leikmaður sem við erum mjög spennt fyrir. Þrátt fyrir sinn unga aldur hefur hún þegar þróað leik sinn mjög mikið og er lýst sem einum af efnilegustu markvörðum Evrópu.

Við vorum ekki ein um að vilja hana þar sem betur þekktari félög í Evrópu sýndu henni áhuga. Það er því mikið gleðiefni að hún velji að halda áfram að þróa leik sinn í því hágæðaumhverfi sem við bjóðum upp á. Hún lítur á þetta sem rétt skref fyrir sig á þessum tímapunkti ferils síns,“ sagði Jonas Nilsson, yfirmaður íþróttamála hjá kvennaliði Örebro, í samtali við heimasíðu liðsins.

Cecilía gerir eins árs samning, út tímabilið sem hefst eftir um mánuð, og er hugsuð sem aðalmarkvörður Örebro á tímabilinu þar sem Moa Öhman, sem hefur verið aðalmarkvörður liðsins, er að glíma við alvarleg meiðsli og verður frá vegna þeirra út allt tímabilið.

„Það er augljóst að Cecilía vill halda áfram að þróa leik sinn og taka skref upp á við. Möguleikar hennar eru óendanlegir en á sama tíma gerir hún sér grein fyrir því að hún er nú þegar tilbúin til þess að spila á allra hæsta stigi knattspyrnunnar, sem er ekki mjög algengt á hennar aldri.

Við fáum ekki einungis leikmann sem er komin hingað til þess að læra og þróa leik sinn, við fáum leikmann sem er tilbúin til þess að berjast um byrjunarliðssæti, sem er akkúrat það sem við vorum að leita að þar sem Moa er meidd,“ bætti Nilsson við.

Sjálf sagði Cecilía í samtali við heimasíðu Örebro:

„Ég er ótrúlega glöð að fá þetta tækifæri hjá Örebro. Þetta er mjög gott félag með góðar aðstæður, leikmenn og þjálfara. Það er líka gaman að flytja til Svíþjóðar og fá að fóta mig í sænsku úrvalsdeildinni, sem er ein besta deildin í heiminum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert