Stjarnan er komin áfram í undanúrslit Lengjubikars karla í knattspyrnu eftir 4:2-sigur á Fylki á Samsung-vellinum í Garðabænum í dag. Heimamenn lentu tveimur mörkum undir áður en taflinu var snúið við.
Þórður Gunnar Hafþórsson kom Árbæingum í forystu á 17. mínútu leiksins áður en Arnór Borg Guðjohnsen bætti við marki fyrir Fylki, staðan orðin 0:2 á 32. mínútu. Heimamenn náðu þó að klóra í bakkann rétt fyrir hlé, Hilmar Árni Halldórsson skoraði eftir sendingu frá Þorsteini Má Ragnarssyni.
Þorsteinn skoraði svo sjálfur til að jafna metin um tíu mínútum eftir að síðari hálfleikur fór af stað og Brynjar Gauti Guðjónsson fullkomnaði svo endurkomuna á 67. mínútu er mark hans kom Stjörnunni í forystu. Sigurinn var svo innsiglaður af varamanninum Kára Péturssyni sem skoraði á 87. mínútu, lokatölur 4:2.
Stjarnan mun því mæta Íslandsmeisturum Vals í undanúrslitum fimmtudaginn 1. apríl. Þá er Keflavík einnig búið að tryggja sér sæti í undanúrslitunum og mætir annaðhvort Breiðabliki eða KA, en liðin mætast á Kópavogsvelli klukkan 16 í dag.