Íslandsmeistarar Vals eru komnir áfram í undanúrslit Lengjubikars karla í fótbolta eftir sigur á KR í vítakeppni í ótrúlegum leik á Origo-vellinum á Hlíðarenda. Lokatölur í venjulegum leiktíma urðu 3:3 eftir að KR komst í 3:0 í seinni hálfleik.
Óskar Örn Hauksson kom KR yfir í blálok fyrri hálfleiks. Markið virtist gefa KR-ingum aukinn kraft því Guðjón Baldvinsson bætti við öðru marki á 47. mínútu og svo þriðja marki KR á 55. mínútu.
Allt stefndi í öruggan sigur KR-inga og sæti í undanúrslitum, en Valsmenn neituðu að gefast upp.
Kristinn Freyr Sigurðsson lagaði stöðuna á 61. mínútu, áður en Tryggvi Hrafn Haraldsson minnkaði muninn í 3:2 á 76. mínútu. Aðeins fjórum mínútum síðar braut Hjalti Sigurðsson af sér innan teigs, Valur fékk víti og Patrick Pedersen jafnaði metin. Hjalti var rekinn út af með beint rautt spjald.
Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og réðust úrslitin því í vítakeppni. Þar skoraði Valur úr öllum fimm spyrnum sínum en KR úr fjórum spyrnum. Emil Ásmundsson skaut í slána úr síðustu spyrnu KR og Haukur Páll Sigurðsson tryggði Val sigurinn með næstu spyrnu.