Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segist hafa verið áhugasamur um að fá Björn Bergmann Sigurðarson til liðs við sig fyrir næstu verkefni en framherjinn hefur dregið sig úr landsliðshópnum.
Ísland mætir Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein í lok mánaðar og var Björn, sem spilar með Molde í Noregi, valinn í hópinn. „Við vonuðumst til þess að Molde myndi gefa okkur færi á að vera með Björn í hópnum en það var strembið,“ sagði Arnar í útvarpsþætti Fótbolta.net á X977.
„Á endanum ákvað Björn að draga sig út úr hópnum. Molde hefur ákveðið vald, að neita honum um að fara. Við höfum ákveðið tromp í hendi, ef það þyrfti að fara í hart, þá gætum við fengið leyfi frá UEFA en maður vill ekki vera í einhverju stríði við leikmenn eða félög,“ sagði Arnar enn frekar og bætti við að Björn vildi einbeita sér að sínu félagsliði á þessari stundu.