Knattspyrnumaðurinn Ævar Ingi Jóhannesson hefur lagt skóna á hilluna, í það minnsta í bili, og mun því ekki leika með Stjörnunni í sumar.
Í samtali við Fótbolta.net staðfesti Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, þetta í kjölfar 4:2 sigurs gegn Fylki í fjórðungsúrslitum Lengjubikarsins í gær.
„Hann er skráður í Stjörnuna en hann er bara hættur eins og staðan er núna. Hann ætlar að taka sér pásu frá fótbolta, hann er að vinna mikið og sinnir því vel,“ sagði Rúnar við Fótbolta.net, og bætti því við að Ævar gæti þó snúið aftur á völlinn í framtíðinni.
Ævar, sem er 26 ára gamall, hefur glímt við mikil og langvarandi meiðsli undanfarin ár og spilaði til að mynda aðeins einn leik í Pepsi Max-deildinni á síðasta tímabili.