Fyrsti leikur Þorsteins gegn Ítalíu

Sara Björk Gunnarsdóttir í baráttunni í leik Íslands og Svíþjóðar …
Sara Björk Gunnarsdóttir í baráttunni í leik Íslands og Svíþjóðar á Laugardalsvelli í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson stýrir sínum fyrsta leik sem þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu gegn Ítalíu hinn 13. apríl.

Þetta staðfesti KSÍ, Knattspyrnusamband Íslands, á heimasíðu sinni í dag en um vináttulandsleik er að ræða.

Leikstaður hefur ekki verið ákveðinn en þetta verður í sjötta sinn sem liðin mætast og í fyrsta sinn síðan árið 2007 þegar liðin mættust í Algerve-bikarnum.

Þá fóru Ítalir með 2:1-sigur af hólmi en Ítalía hefur tvisvar fagnað sigri í viðureignum sínum gegn Íslandi, tvívegis hafa liðin gert jafntefli og einu sinni hefur Ísland farið með sigur af hólmi.

Til stóð að íslenska liðið myndi taka þátt í alþjóðlegu móti í Seden í Frakklandi seinni hluta febrúarmánaðar ásamt Frakklandi, Noregi og Sviss en mótinu var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.

Áttu það að vera fyrstu leikir liðsins undir stjórn Þorsteins sem tók við þjálfun liðsins í lok janúar á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert