Patrik Sigurður Gunnarsson, markvörður Silkeborg og íslenska U21-árs landsliðsins í knattspyrnu, segir stuttan fyrirvara á tilkomu nýs þjálfara ekki munu breyta neinu þegar kemur að undirbúningi liðsins fyrir EM 2021, þar sem Ísland hefur leik gegn Rússlandi í Györ í Ungverjalandi á fimmtudaginn.
Davíð Snorri Jónasson tók við liðinu fyrir tveimur mánuðum eftir að Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen, sem stýrðu U21-árs liðinu á EM, tóku við A-landsliðinu. Þetta er því fyrsta verkefni Davíðs með liðið og hitti hann hópinn í fyrsta skipti í vikunni.
„Davíð veit að hverju hann gengur og hefur verið í góðu og miklu sambandi við fyrri þjálfara. Þetta hefur bara gengið vel og við höfum aðallega verið að skerpa á þeim hlutum sem við höfum verið að gera vel,“ sagði Patrik á teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag.
Hann sagði líkt og samherji hans í Silkeborg og U21-árs landsliðinu, Stefán Teitur Þórðarson, að liðið ætti góða möguleika á að fara upp úr C-riðli mótsins. „Við eigum góðum möguleika. Svo er það sem við höfum fram yfir önnur lið, það er þetta íslenska DNA og mikil samheldni.“
Alfons Sampsted, leikjahæsti leikmaður U21-árs landsliðsins í sögunni, verður ekki með liðinu á mótinu þar sem hann var valinn í A-landsliðshópinn, sem er sömuleiðis í stóru verkefni í undankeppni HM 2022. Patrik sagði liðið vissulega koma til með að sakna hans.
„Jú algjörlega. Hann er náttúrulega leikjahæstur og hefur gert virkilega vel. Hann er mjög stöðugur, gerir lítil sem engin mistök og maður veit alltaf að hverju maður gengur með hann.“