Jóhann æfði ekki með landsliðinu í dag

Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Jóhann Berg Guðmundsson æfði ekki með íslenska landsliðinu í knattspyrnu í Düsseldorf í dag en þar býr liðið sig undir leikinn við Þjóðverja í undankeppni HM. Hann fer fram í Duisburg á fimmtudagskvöldið.

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari sagði við mbl.is í dag að þetta þýddi ekki að Jóhann myndi ekki spila gegn Þjóðverjum.

„Jóhann var aðeins með á æfingunni í gær en ekki í dag. Við erum að reyna að stýra álaginu á honum, eins og hann er vanur að sé gert í Burnley, varðandi hvíld og æfingar. Við reiknum með því að keyra upp tempóið á honum á æfingunni á morgun og við höldum öllu opnu með hann ennþá. Við búumst við að geta notað hann gegn Þjóðverjum en það er samt ekkert ákveðið.

Með hann og fleiri í hópnum er spurningin hvort hægt sé að nota þá í öllum þremur leikjunum, eða kannski bara tveimur. Þetta er í raun álagsstýring á öllum hópnum. Fyrsta skrefið var að fá alla leikmennina hingað, kynna þeim hugmyndir okkar í þjálfarateyminu, æfa, og púsla síðan saman liðinu í samvinnu við læknateymið og þolþjálfarann. Við reynum að finna út hverjir spila, hversu oft og hversu mikið,“ sagði Arnar Þór en nánar er rætt við hann í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert