Leiknir úr Reykjavík hefur fengið til sín kólumbíska knattspyrnumanninn Andrés „Manga“ Escobar og samið við hann út komandi keppnistímabil.
Escobar er 29 ára gamall sóknar- eða kantmaður sem hefur komið víða við á undanförnum árum. Hann var lengi samningsbundinn Dynamo Kiev í Úkraínu en lék aldrei með liðinu og var lánaður m.a. til Kólumbíu, Frakklands, Bandaríkjanna og Brasilíu. Hann hefur í vetur leikið með Cúcuta Deportivo í heimalandi sínu. Escobar lék með U20 ára landsliði Kólumbíu á sínum tíma.
Áður höfðu Leiknismenn fengið til sín Octavio Páez frá Venesúela og eru því komnir með tvo suðurameríska leikmenn í sínar raðir.