Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur samið við ástralska sóknarmanninn Oliver Kelaart. Kelaart, sem er 22 ára gamall, spilaði síðastliðið sumar með Kormáki/Hvöt í fjórðu deildinni hér á landi.
Kelaart lék 14 leiki og skoraði í þeim 11 mörk á síðasta tímabili en Húnvetningarnir voru nærri því að vinna sér sæti í 3. deild og enduðu í fjórða sæti í úrslitakeppninni. Kelaart spilaði fyrr í vetur með Keflavík í Fótbolta.net mótinu og nú hefur hann samið formlega við félagið.
Kelaart á ættir að rekja til Spánar og spilaði þar í neðri deildum í meistaraflokki. Hann spilaði einnig í yngri flokkum þar í landi að hluta, en spilaði mestmegnis í yngri flokkum í heimalandi sínu, Ástralíu, áður en hann flutti 17 ára gamall til Spánar.
Keflavík leikur að nýju í úrvalsdeildinni í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, þetta tímabilið eftir að hafa unnið 1. deildina, Lengjudeildina, í fyrra.