Landsliðskona til nýliðanna

Dominique Bond-Flasza (16) fagnar ásamt liðsfélögum sínum í jamaíska landsliðinu …
Dominique Bond-Flasza (16) fagnar ásamt liðsfélögum sínum í jamaíska landsliðinu eftir að hún tryggði liðinu sæti á HM í fyrsta skipti. AFP

Knattspyrnudeild Tindastóls hefur samið við hægri bakvörðinn Dominique Bond-Flasza. Bond-Flaszsa er landsliðskona frá Jamaíka og lék einn leik fyrir liðið á HM 2019.

Fótbolti.net greinir frá félagaskiptunum. Bond-Flasza er 24 ára gömul og hefur alls leikið 24 landsleiki og skorað fjögur mörk fyrir Jamaíka.

Kvennalið Jamaíku tryggði sér sæti á HM í fyrsta sinn haustið 2018. Var það Bond-Flasza sem tryggði liðinu sigur með því að skora úr síðustu vítaspyrnunni í vítakeppni gegn Panama, í umspili um síðasta lausa sætið á HM 2019.

Bond-Flasza kemur frá Medyk Konin í Póllandi og var áður á mála hjá PSV Eindhoven í Hollandi og Seattle Sounders í Bandaríkjunum, eftir að hafa spilað í háskólaboltanum þar í landi með Washington Huskies.

Tindastóll er nýliði í Pepsi Max-deild kvenna, þar sem liðið mun leika í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert