Davíð Snorri Jónasson þjálfari U21-árs landsliðs karla í knattspyrnu, segist gera sér fulla grein fyrir því hversu stórt verkefni liðið er að fara í þegar það hefur leik á EM 2021 í aldursflokknum á morgun.
Davíð Snorri tók við liðinu í byrjun árs og er því um fyrsta verkefni hans með því að ræða. Á Zoom-fjarfundi með blaðamönnum í dag sagði Davíð Snorri aðspurður hvernig það hafi verið fyrir hann að fara strax í svona stórt verkefni og fá lítinn tíma með strákunum:
„Mjög skemmtilegt. Þetta er náttúrulega risastórt verkefni en ég var kominn með góða mynd á hópinn og hef rætt við fyrri þjálfara. Ég hef verið mjög hrifinn af því sem ég hef séð hingað til.“
Hann sagði stöðuna á íslenska hópnum góða og að undirbúningur hafi gengið vel. Valgeir Lunddal Friðriksson sé betri með hverjum deginum og Andri Fannar Baldursson, sem hefur verið að glíma við smávegis hnjask, sé sömuleiðis allur að koma til. Því búist Davíð Snorri við því að allir verði í lagi þegar liðið mætir Rússum í fyrsta leik á morgun.
Hann bætti því við að leikmenn í hópnum séu upp til hópa miklir fagmenn og nái að halda góðu jafnvægi milli góðrar stemningar og mikillar einbeitingar. Því væri spennustig leikmanna fyrir leikinn gegn Rússum á morgun í góðu jafnvægi.
Spurður nánar um rússneska liðið sagði Davíð Snorri: „Rússar vinna vel sem lið, vinna sem ein heild, eru agaðir og mjög vel skipulagðir. Þeir eru með mjög skýrt leikplan og spila svolítið eins og maður myndi búast við því að rússneskt lið spili.“
Nokkur þekkt nöfn eru í rússneska hópnum, þar á meðal sóknarmaðurinn Fedor Chalov sem á þrjá A-landsleiki að baki og hefur skorað mikið fyrir CSKA Moskvu undanfarin ár. Þá er samherji hans hjá CSKA, miðjumaðurinn Ivan Oblyakov, afar öflugur leikmaður sem á að baki tvo A-landsleiki og býr yfir mikilli reynslu.
„Við munum fyrst og fremst einbeita okkur að eigin varnarleik frekar en Chalov eða einhverjum einum sérstökum,“ sagði Davíð Snorri.