Ragnar Sigurðsson, miðvörður úkraínska knattspyrnuliðsins Rukh Lviv og íslenska landsliðsins, hefur lítið spilað á yfirstandandi tímabili. Arnar Þór Viðarsson segir það þó ekki vera honum til vansa þar sem Ragnar búi yfir svo mikill leikreynslu.
Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Rukh Lviv í síðustu viku og hafði fyrir það aðeins spilað fjóra leiki með Kaupmannahöfn á tímabilinu áður en hann gekk til liðs við úkraínska úrvalsdeildarliðið fyrir rúmum tveimur mánuðum.
„Raggi er einn af þeim sem eru ekki í mikilli leikæfingu. En sumir leikmenn hafa svo mikla reynslu og því eru það ekki allir sem þurfa að vera í miklu leikformi til þess að spila einn, tvo eða þrjá leiki. Ekki það að Raggi gæti spilað alla þrjá leikina í þessum landsleikjaglugga.
En það er mikilvægt að hafa hann af því að hann er einn af þeim sem búa yfir þessari reynslu. Þegar þú býrð yfir svona mikilli leikreynslu þekkirðu aðstæður á vellinum betur. Nýir leikmenn fara oft í fyrstu leikina áræðnir og hlaupa mikið á meðan þeir reyndari, eins og Raggi, geta nýtt sér heilabúið,“ sagði Arnar Þór á Zoom-fjarfundi með blaðamönnum í dag.
Það er ekki ofsögum sagt að segja Ragnar reynslumikinn, þar sem hann hefur spilað vel á sjötta hundrað leikja á löngum ferli sínum, þar af 97 A-landsleiki.