Staðan í dag mikil vonbrigði

Klara Bjartmarz, framkvæmdastýra KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastýra KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum ennþá bara að melta þessar upplýsingar en þetta eru vissulega stór tíðini,“ sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastýra KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Öll keppni í íþróttum hér á landi mun leggjast af næstu þrjár vikrunar en þetta var tilkynnt á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar og almannavarna í Hörpu í dag.

„Við erum fyrst og fremst að reyna safna saman upplýsingum um hvað þessar takmarkanir þýða nákvæmlega og við bíðum bara róleg eftir nýjustu reglugerðinni frá stjórnvöldum.

Það er allt of snemmt að fullyrða um það hvort við séum að fara aflýsa einhverjum keppnum og þótt við höfum átt von á einhverjum fréttum í dag áttum við ekki von á þessum fréttum.

Ég viðurkenni það fúslega að sú staða sem er uppi í dag er mikil vonbrigði enda erum við komin á sama stað og við vorum á fyrir ári síðan,“ sagði Klara.

Upphafsleikur Íslandsmóts karla á að fara fram á Hlíðarenda hinn …
Upphafsleikur Íslandsmóts karla á að fara fram á Hlíðarenda hinn 22. apríl þegar Valur tekur á móti ÍA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skýrist betur á næstu dögum

Úrvaldeild karla, Pepsi Max-deildin, hefst 22. apríl og þá er keppni í deildabikarnum, Lengjubikarnum, í fullum gangi hjá sambandinu og óvíst er hvert framhaldið verður.

„Núna þurfum við að setjast niður og fara yfir það sem var tilkynnt á þessum fundi ríkisstjórnarinnar og Almannavarna. Við munum svo bara setjast niður með formanni mótanefndar og fara yfir þá stöðu sem upp er komin á morgun.

Eins og þetta lítur út í dag er nokkuð ljóst að það verður ekki spilað næstu þrjár vikurnar. Við þurfum að skoða næstu skref vel varðandi bæði deildabikarinn, Meistarakeppnina, bikarkeppnina og svo fyrstu leiki Íslandsmótsins.

Ég á von á því að mótanefnd muni leggja fram einhverjar tillögur um deildabikarinn á næstunni, hvort hann verði þá kláraður eða honum verði ólokið. Þetta mun allt skýrast betur á næstu dögum,“ bætti Klara við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert