Úr ensku úrvalsdeildinni í Breiðholtið

Rees Greenwood í leik með Sunderland.
Rees Greenwood í leik með Sunderland. Ljósmynd/Sunderland AFC

Enski knattspyrnumaðurinn Rees Greenwood er genginn til liðs við 2. deildarlið ÍR en hann er m.a. með leik í ensku úrvalsdeildinni á ferilskránni.

Greenwood er 24 ára gamall miðjumaður sem ólst upp hjá Sunderland og náði að spila einn úrvalsdeildarleik fyrir félagið, gegn Watford vorið 2016, og þá var hann undir stjórn hins kunna knattspyrnustjóra Sam Allardyce. Það sama ár lék hann tvo leiki með U20 ára landsliði Englands.

Greenwood var í röðum Sunderland til ársins 2018 og lék með U23 ára liði félagsins en fór síðan til Gateshead í ensku E-deildinni og Falkirk í skosku B-deildinni,  en hefur síðan leikið með enskum utandeildaliðum og var í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í vetur.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að vinna með Rees. Hann hefur ótvíræða hæfileika sem leikmaður og mun styrkja okkar lið mikið. Ennfremur held ég að hann muni hjálpa okkar ungu leikmönnum að þroskast og bæta sig sem leikmenn,“ segir Arnar Hallsson þjálfari ÍR á Facebook-síðu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert