„Lentum í eltingaleik“

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðsins.
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðsins. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðs karla í knattspyrnu, var að vonum svekktur með 1:4 tapið gegn Rússlandi í C-riðli úrslitakeppni Evrópumótsins í Györ í dag. Davíð Snorri sagðist þó geta tekið ýmislegt jákvætt úr leiknum.

„Þetta var mjög svekkjandi, sérstaklega kaflinn þar sem við lentum í eltingaleik. Þótt það lægi á okkur vorum við á löngum stundum við góða stjórn en svo kom vondur kafli sem við náðum svo að vinna okkur út úr og komum betur inn í seinni hálfleikinn,“ sagði hann á Teams-fjarfundi með blaðamönnum að leik loknum, en Rússa voru 0:3 yfir í hálfleik.

Spurður um hvað hafi helst farið úrskeiðis í leiknum sagði Davíð Snorri: „Það komu þarna augnablik þar sem þeir náðu góðum skyndisóknum og við vorum svolítið hálft í hálft, það slitnaði á milli. Þeir voru að vinna vel í millisvæðin og voru að tvöfalda á okkur.

Við hefðum þurft að vinna betur saman á þeim augnablikum. Við ræddum það í hálfleik að við þyrftum að anda inn og anda út, fórum yfir hvernig við þurftum að laga færslur og loka millisvæðunum betur. Við löguðum það í seinni hálfleiknum.“

Þrátt fyrir stórt tap sagði hann liðið geta tekið ýmislegt jákvætt með sér úr leiknum. „Við skoruðum þetta mark og spiluðum vel í seinni hálfleik. Það var aldrei inni í myndinni að gefast upp og það sýnir bara hversu sterk liðsheildin er í þessum hóp, við stigum upp. Við lentum í vondum kafla, það gerist.“

Davíð Snorri bætti því að mótið sé alls ekki búið þó fyrsti leikurinn hafi tapast. „Þetta er lokamót og þá eru allir leikir erfiðir. Þetta er ekki allt búið og lok, lok og læs. Við erum ekki þannig.“

Næsti leikur liðsins er gegn Danmörku á sunnudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert